top of page
106985158_1565686250259511_6651365253522

Framtíðarsýn

Framtíðarsýn fyrir Bárarvöll

Eftirfarandi breytingar samþykkja félagar Vestarr að fari verði í á næstu árum og misserum:

 

1. Braut
 

  • Farið verði í að stækka glompur .

  • Gróðursetning.  Samþykkt að auka við gróðursetningu. Farið verði að tillögu Edwin Roalds; "Skýrsluhöfundur er ekki ýkja hrifinn af öspum og myndi fremur kjósa að sjá tegundir sem fyrirfinnast í íslensku landslagi frá náttúrunnar hendi, ekki síst við þau skilyrði sem ríkja á Bárarvelli. Mælt er með því að leitað verði til sérfræðinga á sviði trjáræktar um þetta atriði. Golfvallahönnuður getur lagt fram forsendur sem slíkur sérfræðingur getur síðan unnið með, t.d. teikningu sem sýnir staðsetningu, lögun og stærð"

 

2. Braut

  • Nýr aftasti teigur byggður skv. fyrirliggjandi teikningu og hann hækkaður nægjanlega til að kylfingur sjái flaggstöngina á flöt

  • Braut lengd niður að skurði til að stytta vegalengd sem kylfingur af aftasta teig þarf að slá yfir óhirt land.  Öll þessi nýrækt verði slegin sem braut, þ.e. að brautin verði samhangandi, en ekki slitin í sundur líkt og fyrirliggjandi teikning sýnir.

  • Að aukið verði við gróðursetningu beggja vegna brauta þó ekki þannig að slíkt þrengi að braut.

 

3. Braut

  • Báðir teigar verði "réttir af" miðað við braut.

  • Flötin verði stækkuð með því að fylla lautina vinstra megin við flötina með mold og síðan verði flötin stækkuð til vinstri með þökulagningu

  • Gróðursett verði tré hægra megin við braut, við lendingarsvæði högga.

  • Gerð verði tilraun til þess að viðhaldi vatni í tjörninni framan við þriðju flöt. Takist sú tilraun illa eða ekki næstu tvö ár (eftir 2013) verði tjörninni breytt í glompu.

 

4. Braut

  • 1.    Flöt verði stækkuð.

  • 2.    Glompa verði stækkuð og dýpkuð.

  • 3.    Gróðursett verði tré vinstramegin við stækkaða flöt.

 

5. Braut

  • 1.    Gróðri komið fyrir ofan austan brautar (vinstra megin er brautin er lekin).

  • 2.    Leiðrétta stöðu fremri teigs (kvennateigs) miðað við braut.

  • 3.    Stalla flötina.  Ath í samræmi við samþykkt um nýjar flatir.

  • 4.    Gróðursetja tré í samræmi við teikningu sem fyrirliggjandi er af vellinum.

 

6.  Braut

  • Í dag er flötin kúpt. Fjarlægja efni úr henni miðri, flötin verði þannig "flatari". Ath í samræmi við samþykkt um nýjar flatir.

  • Báðir teigar réttir af miðað við braut.

  • Gróðursetja ný tré í stað grenitrjánna sem fyrir voru.

  • Setja tré austan teiga sem skýla frá höggum af fimmtu braut.

  • Gróðursetja tré í samræmi við teikningu sem fyrirliggjandi er af vellinum.

 

7. Braut

  • Flöt breytt með viðbótarefni. Aftasti hluti hennar hækkaður upp og látinn halla á móti högginu (mön) og flötin lækkuð öll í landinu.

 

8.  Braut

  • Gróðri bætt við aftan við flöt.

  • Vatnstorfæra stækkuð til austurs.

  • Glompa stækkuð

  • Gróðursett á hægri hönd.

 

9.  Braut

  • Settar verði tvær glompur vinstra megin við braut í samræmi við teikningu sem fyrirliggjandi er af vellinum.

 

Almennt

  1. Allar flatir teknar upp, skipt um jarðveg í þeim og golfvallahönnuður látinn skapa "líf" í þeim. Sett lágmark 30 cm þykkt moldarlag undir. Sjá kafla um flatir

  2. Skjólbelti gróðursett norð-austan golfvallar.

  3. Meira verði gróðursett við skála.

  4. Stefnt verði að því að mismunur á gulum og rauðum teigum verði hvergi minni en 20% og hvergi meiri en 25%

 

 

Gróður

 

Frá Edwin; "Á fyrirliggjandi teikningu eru sýndar gróðurþyrpingar. Hér er gert ráð fyrir að henni sé ekki ætlað að virka sem sem stíf og nákvæm leiðbeining um gróðursetningu. Sú heildarmynd, sem þar er dregin upp af hlutdeild trjágróðurs á Bárarvelli, er góð að mati skýrsluhöfundar. Undirritaður kýs þó sjálfur að beita annars konar nálgun þegar staðsetning trjáþyrpinga er ákvörðuð. Til dæmis mælir skýrsluhöfundur með að trjáþykkni verði ekki komið fyrir í lægðum mjög nærri brautum, sem kylfingurinn sér ekki ofan í, og getur því ekki vitað hvort bolti hans hvarf inn milli trjáa eða hvort hann sé að finna í slegnum karga í grennd. Mælt er með því að trjám verði fremur komið fyrir í tiltölulega stórum þyrpingum á hápunktum eða í grennd við þá og að grasi verði leyft að vaxa í jaðri þeirra. Þannig er unnt að koma í veg fyrir óþægindi við slátt milli stakratrjáa.

Skýrsluhöfundur vill einnig beina því til klúbbsins að forðast beinar línur og löng, samhangandi trjábelti - stefna fremur að misstórum þyrpingum. Gæta að staðsetningu m.t.t. óþarfa leit að bolta og leiktafa.

Eru þetta aðeins tvö lítil dæmi um viðfangsefni sem undirritaður telur að klúbburinn eigi aðhugleiða áður en gróðursetning hefst. Mælt með að klúbburinn þrói með sér ítarlega framtíðarsýn um trjáræktarmál, skilgreini reiti til trjáræktar þar sem kveðið verði á um hámarks-hæð plantna,ásýnd og tilgang. Slíka teikningu má síðan færa í hendur sérfræðinga á sviði trjáræktar, sem geta í framhaldinu útbúið tegundalista og frekari leiðbeiningar um gróðursetningu." 

 

Þessi umsögn er í heild sinni samþykkt inn í þessa skýrslu.

 

Staðsetning, afstaða og umfang hindranna (glompur og gróður):  Hvernig refsum við fyrir teighögg utan brautar?

 

Frá Edwin; "Skýrsluhöfundur varð var við umræðu um refsingar við "villtum" teighöggum. Skiljanlega þykir fundarmönnum einkennilegt að kylfingur geti slegið teighögg sitt víðs fjarri þeirri braut sem leikin er, en fá fyrir það litla sem enga refsingu þar sem sums staðar er stutt milli samsíða brauta og grasið milli þeirra fremur létt.

Vissulega er sá möguleiki fyrir hendi í dag að slá yfir á ranga braut án þess að af því hljótist mikill skaði. Þetta verður enn öfugsnúnara ef landið milli brauta verður skreytt hindrunum og háu grasi í miklum mæli. Þá gildir hið sérkennilega að kylfingurinn hagnist, hafi hann einfaldlega slegið nógu skakkt til að komast alla leið yfir á næstu braut, en högg, sem eru ekki jafn mikið af leið, fá meiri refsingu.

Skýrsluhöfundur mælir fremur með að kylfingum verði skapað nægilegt rými til athafna svo leikur geti gengið vel fyrir sig fyrir sem flesta forgjafarhópa, en að hugleiddar verði hindranir í nánd við flatir, þá aðallega glompur, til að þær taki betur við höggum frá viðkomandi braut, eða annarri hlið hennar, en öðrum og verri stöðum. Þetta á við um marga hátt skrifaða velli á heimsvísu, t.d. gamla völlinn í St. Andrews, Augusta National og Royal Melbourne.

Fyrirliggjandi teikning sýnir staðsetningu sandgryfja. Undirritaður mælir með að klúbburinn endurskoði fjölda þeirra og staðsetningu m.t.t. þess sem hér kemur fram að ofan. Einnig er eftirsóknarvert að halda fjölda sandgryfja í skefjum gagnvart umhirðu- og efniskostnaði. Hér skal áréttað að ekki er hægt að tala um rétt eða rangt í þessu samhengi, heldur virðist hér um að ræða ákveðinn mun á nálgun og/eða sannfæringu tveggja hönnuða. Skýrsluhöfundur er á því að á Bárarvelli ætti áherslan fremur að vera á glompur eða annars konar hindranir öðru hvoru megin við aðdraganda flatar, til að verðlauna vel hugsaðan leik frá teig, fremur en á brautarglompur. Þó er ekki útilokað að þær síðarnefndu geti kryddað leikinn á ákveðnum brautum."

 

Þessi umsögn er í heild sinni samþykkt inn í þessa skýrslu.

 

Teigar

 

Frá Edwin; "Skýrsluhöfundur veitir því athygli að á fyrirliggjandi teikningu er gert ráð fyrir þremur teigum á hverri braut, ef frá eru taldar brautir nr. 1, 4 og 8. Mælir undirritaður sterklega með því aðklúbburinn hugleiði þetta fyrirkomulag alvarlega, horfi með gagnrýnum augum á núgildandi teiga fyrirkomulag á Íslandi og setji sér markmið um gerð nýrra teiga í áföngum á næstu árum.Þegar litið er á málið í nýju ljósi, þá hlýtur það að koma mönnum spánskt fyrir sjónir að maður með 5 í forgjöf leiki af sama teig og maður með 30 í forgjöf. Karlkylfingar eru jú ekki par hrifniraf því að slá af rauðum teig, þar sem hann er oftar en ekki nefndur til sögunnar sem kvennateigur, sem er í raun rangnefni. Þetta takmarkar verulega möguleika okkar - sem skipuleggja golfvelli - að stilla vellinum þannig upp að hver getuhópur fái notið leiksins sem best. Upplifun hvers og eins af vellinum hlýtur að verða jákvæðari ef hann er ekki borinn ofurliði af því hversu erfiður völlurinn er, og eins því hversu vel hindranir og torfærur eiga við

högglengd hans.

 

Íslensk venja gagnvart uppsetningu teiga á golfvelli er um margt sérstök. Hvítir og bláir teigar eru nánast aldrei notaðir. Þeir hvítu eru ætlaðir meistaraflokksmönnum úr röðum karla, en bláir hugsaðir fyrir meistaraflokk kvenna. Á þeim völlum sem yfir höfuð hafa slíka teiga, þá er hægt að ímynda sér að að fjöldi hringja á þeim hlaupi aðeins á nokkrum tugum yfir heilt sumar. Samt er farið út í kostnað og fyrirhöfn við að byggja og hirða þessa teiga. Það er synd að geta ekki notað þá betur, dreift betur álagi og höfðað til stærri hóps kylfinga.

 

Víða erlendis hafa menn tileinkað sér mun meira frjálsræði við skipulagningu á teigum og útfærslu á ýmiss konar hugmyndafræði í kringum þá. Í Bandaríkjunum hefur undirritaður leikið marga velli þar sem litirnir eru æði óhefðbundnir og hafa þeim þá verið gefin nöfn á einhverjum fyrirbærum úr náttúru umrædds svæðis.

 

Í Golfborgum í Grímsnesi - verkefni sem hefur verið stöðvað a.m.k. um stundarsakir - hafði skýrsluhöfundur ætlað að gera breytingar á þessu kerfi okkar. Var ætlunin þá að vera áfram með gula teiga, en stilla þeim upp talsvert framar en almennt tíðkast hjá okkur um þessar mundir. T.d. hefði samanlögð lengd brauta á 18 holum þá orðið um 5.100 m af slíkum teigum - par 70. Hugmyndin var þá að hvítir teigar kæmu þar fyrir aftan, eins og við þekkjum, en að betri kylfingar, t.d. þeir sem eru með 10 í forgjöf og lægra, yrðu hvattir til að nota þá ef þeir vildu. Það hefði eflaust ekki þótt raunhæft ef ekki hefði verið fyrir bláu teigana, sem ætlunin var að koma fyrir allra aftast - að þeir yrðu gerðir að meistarateigum fyrir menn með lægstu forgjöf, afrekskylfinga og atvinnumenn.

 

Eftir á að hyggja var þetta fyrirkomulag ekki nógu gott, e.t.v. vegna þess að hér var um að ræða sömu liti og notaðir eru í dag. Þetta olli smávægilegum misskilningi, sem aðstandendur verkefnisins fundu fyrir í kynningu á verkefninu og öllum aðdragandanum. Betra er líklega að stokka litakerfið algerlega upp og útiloka alla þá liti sem eru við lýði í dag. Best væri þá að nota liti eins og steingráan, grænan, brúnan o.s.frv. Skýrsluhöfundur leyfir sér að fullyrða að í þessu felist ekkert brot á nokkurs konar reglum, sem margir virðast telja að séu í gildi. Undirritaður sér ekki önnur vandamál í þessu en að gera þurfi ráð fyrir meiri sveigjanleika í túlkun golf.is kerfisins

á lengd valla af ólíkum teigum. Það er í raun bara úrlausnaratriði.  Ákjósanlegast væri ef aðkomu-kylfingur kæmi í klúbbhúsið á Bárarvelli, næði þar í skorkort og

skoðaði heildarlengd brauta af þeim teigum sem í boði eru. Að svo komnu bendir hann á ákveðinn lit, hugsar með sér: "Þetta er fín lengd fyrir mig," og fer út á völl. Á skorkorti mætti jafnvel vera leiðbeinandi texti, þar sem klúbburinn ráðleggur ákveðnum forgjafarhópum að leika af ákveðnum teigum.

Sveigjanleikinn, sem kerfi af þessu tagi myndi hafa í för með sér, myndi gagnast okkur einna best á 2. braut Bárarvallar, eins og sú braut hefur verið teiknuð."
 

Þessi umsögn er sett inn í þessa lokaskýrslu.  Félagsfundur setur fyrirvara um fjölgun teiga sökum kostnaðar og lætur ákvörðun um þetta atriði bíða næstu endurskoðunar framtýðarsýnar Bárarvallar.

 

 

Stígar og vinnuvegir

 

Frá Edwin; "Meðal almennra hugmynda um Bárarvöll voru óskir um nýjan stíg eða vinnuveg suður fyrir flöt á 2. braut, m.a. til að hlífa svæðinu framan við þá flöt og þurfa ekki að ganga í veg fyrir kylfinga sem leika 2. braut þegar gengið er frá 7. flöt og niður á 8. teig. Þessi breyting yrði tvímælalaust vellinum til framdráttar, en skýrsluhöfundur vill eigi að síður leggja áherslu á að vel verði vandað til þessa nýja vegarkafla svo ekki verði ami af honum í lítt spilltu landi handan lækjarins aftan 2. flatar þegar sú braut er leikin og horft í átt til flatar frá braut. Ásýnd svæðisins yrði, að mati undirritaðs, betri ef leggja má veginn sem næst núgildandi landhæð. Ef hann þarf að vera hærri til að hann beri umferðarþungann og haldist nógu þurr, þá er mælt með því að gróður úr vegstæðinu verði lagður til hliðar við veglagninguna og honum klappað aftur í aflíðandi vegfláa flatarmegin, svo vegurinn virðist ekki rísa svo mjög upp úr landinu frá því sjónarhorni.

 

Á næstu síðu er tillaga skýrsluhöfundar að stígum og vinnuvegum á Bárarvelli, unnin ofan í fyrirliggjandi teikningu. Eftirsóknarvert er að geta ekið sláttuvélum og öðrum tækjum eftir góðum vegum, þar sem það fer betur með tæki og sparar eldsneyti og tíma. Undirritaður kappkostar að jafnaði að sameina vinnuvegi og þá stíga sem kylfingar nota til að komast frá flöt, að og framhjá næsta teig og að brautarenda. Mikilvægt er að umferð kylfinga geti dreifst vel og jafnt þegar gengið er inná stíga, sem og útaf þeim. Það næst með því að haga stígnum þannig að hann taki á sig mjúkan sveig þar sem kylfingur er líklegur til að ganga inná eða útaf honum. Þetta er mun árangursríkari leið en að vera með eiginlega stígenda, þar sem allir ganga inná eða útaf grasinu á sama stað. Þar myndast þá alltaf flag og hefur stígurinn því að mörgu leyti glatað tilgangi sínum. Líkt og lýst er hér að framan varðandi ásýnd hins fyrirhugaða vinnuvegar aftan 2. flatar, þá er við hæfi að velja stígstæði sem ekki eru of áberandi í landinu. Það er góð stefna að reyna að fela stíga sem kostur er, sérstaklega þegar horft er til brautar frá teig. Að slá eftir endilöngum stíg frá teig til brautar rýrir upplifun kylfingsins af landinu og leiknum. Reynt skal eins og kostur er að nýta hápunkta í landinu til að byrgja sýn á sem stærsta hluta stíganna, og leyfa grasi sums staðar að vaxa í sama tilgangi. Þrátt fyrir ofangreint, þá er ákveðin skynsemi í því að seinka stígagerð fyrir kylfinga eins og kostur er. Ef land er þurrt, þá nægir kylfingum að ganga á grasi. Hægt er að slá breitt belti fyrir þá til að ganga á frá flöt, framhjá næsta teig og út að brautarenda. Stíga ætti aðeins að leggja þar sem land er of blautt og/eða þegar umferð er orðin svo mikil að svörðurinn er tekinn að rofna."

 

Þessi texti frá Edwin er látinn halda sér í lokaskýrslu en bent er á að sami fundur hafnaði nýrri leið fyrir sunnan aðra flöt.  Hafa ber það í huga við lestur textans.  Að öðru leiti samþykkir félagsfundur textann..

 

 

Flatir

Jarðvegsskipti á flötum

 

Frá Edwin; "Helsta umkvörtunarefni þeirra sem standa að Bárarvelli er hve erfitt þeim hefur reynst að skera holur í flestar flatirnar. Virðist undirlag þeirra mjög grýtt, enda stutt niður á mel í flestum tilvikum. Fyrir utan holutöku, þá er auðséð á þessu að ræktunarskilyrði fyrir æskileg golfflatargrös eru ekki viðunandi.

Rætt var um jarðvegsskiptingu og lítils háttar lagfæringar á nánast öllum flötum. Hér á eftir fara lauslegar athugasemdir um hverja þeirra, settar fram í mögulegri tímaröð framkvæmda, eða sem tillaga að forgangsröðun:

7- Stækkun og fjölgun holustaðsetninga.

5- Minnka halla með því að skipta flötinni upp í þrep.

6- Stækkun og minnkun á hæðarmun frá miðju og út í jaðra.

2- Stækkun.

8- Stækkun og fjölgun holustaðsetninga.

9- Stækkun og minnka halla með því að skipta flöt upp í einskonar þrep.

3- Stækkun.

4- Stækkun.

1- Rætt var um að umfang yrði einna minnst á 1. flöt, en nauðsyn að byggja upp með

sömu efnum og á öðrum flötum til að fá samskonar svörun.

Forgangsröðun þessi er lögð fram með fyrirvara um frekari þróun hugmynda um lagfæringar á

hverri flöt, sem kann að hafa áhrif á efnisvöntun eða afgang úr einstökum framkvæmdum og þannig mögulega samnýtingu við gerð annarrar flatar samtímis.

Þegar hefur komið fram skýr vilji klúbbsins til að setja upp áætlun um jarðvegsskipti og lítilsháttar endurgerð flata á Bárarvelli á næstu árum. Að beiðni klúbbsins leggur

skýrsluhöfundur hér til leiðbeiningar um aðferðafræði og efni.

 

Aðferðir

 

Eins og margir landsbyggðar-golfklúbbar, þá hefur Vestarr ekki mikla burði til að vökva jafn ört, reglulega og mikið og nauðsyn krefur ef valin eru byggingarefni "eftir bókinni". Því er nauðsynlegt að "brjóta reglurnar" á réttan hátt til að höfða betur til þess umhverfis sem klúbburinn vinnur í.

Undirritaður leggur til að þær flatir, sem standa á melum, verði endurgerðar þannig. Á þetta við um nær allar flatir vallarins, nema nr. 2:

? Grasrót og allur jarðvegur sem ætla má að lyftist í frosti verði fjarlægður úr stæði

endanlegrar flatar.

? Þurfi að fjarlægja meira efni til að koma fyrir 30 cm þykku lagi nýs ræktunarjarðvegs, þá skal það gert.

? Nýjum ræktunarjarðvegi komið fyrir, sjá efnislýsingu.

Flöt nr. 2 mætti endurgera þannig:

? Grasrót og mold fjarlægð svo móta megi slétt og vel þjappað moldargólf 40-50 cm undir endanlegu yfirborði nýrrar flatar. Hluti moldarinnar nýttur til að búa til nýjan,

upphækkaðan flatarkant meðfram hluta flatarjaðars, gerist þess kostur.

? Drenskurðir grafnir í moldargólfið meðfram efri flatarbrún til að skera á streymi jarðvatns meðfram jarðlögum og inn undir flötina. Drenskurðir fylltir með "drenperlu" og dúkur settur ofan á ef hætt er við því að efni, sem kemur ofan á skurðinn, hrynji niður í perluna.

? Möl eða frostfrítt efni sett ofan á moldarbotninn, 10-20 cm þykkt. Þykkt fer eftir

staðháttum, kostnaði o.fl.

? 30 cm lagi ræktunarjarðvegs komið fyrir allra efst, sjá efnislýsingu.

 

Efnisval

 

Efni, sem skýrsluhöfundur leggur til að verði notað í svokallað rótarlag (efstu 30 cm), er sandur með eftirfarandi kornastærðardreifingu. Hann verði síðan blandaður með mómold (sjá kafla um moldarblöndun):

Flokkun

Kornastærð

Viðunandi hlutfall

Fín möl 2-3,4 mm Ekki meira en 10% efnis innan þessara

marka. Aldrei meira en 3% fín möl

Mjög grófur sandur 1-2 mm (helst ekkert).

Grófur sandur 0.5-1 mm

A.m.k. 60% efnis þarf að falla innan

þessara marka.

Miðlungs grófur sandur 0.25-0.5 mm

Fínn sandur 0.15-25 mm Ekki meira en 20% efnis.

Mjög fínn sandur 0,05-0,15 mm Ekki meira en 5%.

Silt 0,002-0,05 mm Ekki meira en 5%.

Leir Minna en 0,002 mm Ekki meira en 3%.

Samtals fínefni Minna en 0,15 mm Ekki meira en 10%.

Haft skal samráð við hönnuð um það hvort leita skuli til viðurkenndra aðila, t.d. rannsóknastofu, verkfræðistofu, Landbúnaðarháskóla Íslands, Rannsóknastofnun byggingariðnaðarins til að fá efnagreiningu á sýni úr því efni sem til greina kemur að nota í rótarlag. Leita skal sérstaklega eftir niðurstöðum mælinga á köfnunarefni (N), fosfór (P) og Kalí (K), leiðnitölu og pH-gildi.

 

Eftirfarandi tafla sýnir æskileg viðmið:

Sýrustig,pH..................................................................................................... 5,5 til 7,0

Leiðni,mS/cm..............................................................................................Minna en 15

Fosfór(P),mg/100g................................................................................................. 5-10

Kalí(K)mg/100g.................................................................................................. 50-100

Magnesíum,mg/100g.................................................................................... Meira en 2

 

Moldarblöndun

 

Til að draga úr vatnsþörf mælir skýrsluhöfundur með því að sandurinn verði blandaður mómold.

Skal hlutfallið vera 80% sandur á móti 20% mold.

Svokölluð mómold eða mýramold inniheldur hátt hlutfall af lítið niðurbrotnu lífrænu efni en vegna lágs sýrustigs er niðurbrotið og miðlun áburðarefna afar hæg. Slíka mold er því nauðsynlegt að kalka, þ.e. að blanda kalki, t.d. kalkþörungum saman við moldina og blanda síðan moldinni saman við sandinn.

 

Tyrfing og gerð ræktunarsvæðis fyrir flatartorf

 

Tyrfa skal flatirnar með sérræktuðu golfflatargrasi. Undirritaður mælir með að klúbburinn hugleiði að koma sér upp ræktunarsvæði fyrir slíkt gras á golfvallarsvæðinu.

Betra að hafa það í seilingarfjarlægð og geta því hirt það reglulega, slegið og sinnt öðrum aðgerðum með tækjum sem eru geymd á staðnum. Byggja þarf ræktunarsvæðið upp með sama efni og verður notað sem rótarlag í flötunum er þær verða endurgerðar.

Mögulegt er að endurnýta hluta efnisins sem fer í ræktunarsvæðið, þó ávallt verði að sætta sig við einhverja rýrnun þar sem ekki má hætta á að undirliggjandi jarðvegi verði mokað upp með hinu æskilega efni.

Þegar allar flatir hafa verið endurgerðar verður, eðli málsins samkvæmt, eitthvað rótarlagsefni eftir á ræktunarsvæðinu, sem þá er hægt að sá í á nýjan leik og nota að staðaldri til framtíðar til viðgerða, eða sem æfingaflöt.

Til greina kemur að koma upp ræktunarsvæði af þessu tagi norðan 1. brautar. Slíkt svæði þarf að undirbúa með því að fjarlægja af því alla grasrót og gróður. Því næst skal landið formað nægilega til að tryggja góðan vatnshalla og yfirborðið bakdregið svo hvergi verði eftir háar rastir eða dældir. Svæðið skal þurrkað eins og kostur er, t.d. með því að grafa skurð(i) að svæðinu ofanverðu til að hindra streymi jarðvatns inn undir hið fyrirhugaða ræktunarsvæði.

Fjárfesting þessi fengi enn betri meðhöndlun ef úðurum yrði komið fyrir, svo vökva megi svæðið til að hraða spírun og allri þróun. Þannig styttist tíminn frá sáningu til skurðar fyrir flutning og tyrfingu.

Nota má úðara sem eru að jafnaði notaðir í teiga og er unnt að gera þá ýmist sjálfvirka eða kveikja og slökkva á þeim handvirkt. Þeir úða í heilan hring og kasta rúmlega 20 metra í logni.

Tími frá sáningu til skurðar fer að miklu leyti eftir umhirðu. Er hér reiknað með þremur árum, í þeim tilgangi einum að meta æskilega stærð ræktunarsvæðisins. Er hér gengið út frá því að flatir Bárarvallar verði endurgerðar á a.m.k. 6 árum. Þannig þyrfti stærð ræktunarsvæðis ekki að vera nema helmingur af summu flatarmáls allra fyrirhugaðra nýrra flata á vellinum, að viðbættri ákveðinni rýrnun vegna skemmda og afskorninga við tyrfingu. Að mati skýrsluhöfundar þarf dæmigerð flöt á Bárarvelli ekki að vera mikið stærri en 400 fermetrar, að því gefnu að úrval holustaðsetninga sé viðunandi til að dreifa megi álagi. Níu flatir af þessari stærð eru því alls 3.600 fermetrar. Að viðbættum 10% er stærðin komin upp í 4 þúsund fermetra. Sé reiknað með að sáð verði tvisvar í ræktunarsvæðið, þá þarf stærð þess að ná rúmlega 2 þúsund fermetrum. Þykkt rótarlagsins þarf í þessu tilviki ekki að ná sömu þykkt og á flötum Bárarvallar, 30 cm, er þær verða endurgerðar. Á ræktunarflötinni þarf ekki að gera ráð fyrir dýpt holunnar og lengd holuskerans. Því ætti að nægja að gera ráð fyrir 20 cm þykkt. Í ræktunarsvæðið þarf því 400 rúmmetra af þjöppuðu rótarlagsefni. Ef gert er ráð fyrir 15% rýrnun vegna uppmoksturs og meðhöndlunar á lausu efni á flutningabílum, þá er skynsamlegra að gera ráð fyrir að 460 rúmmetrar verði keyptir og fluttir á staðinn.

 

Endanlegt val á efni ræðst af úrvali sem í boði er, gæðum og kostnaði. Líklegt er að efniskostnaður við ræktunarflöt þessa verði vel á aðra milljón króna. Hugsanlegt er, að teknu tilliti til þróunar á olíuverði og þ.a.l. flutningskostnaði, að kostnaður við ræktunarsvæðið muni samsvara aðkeyptu torfi á um fjórar flatir þegar allt er talið.

Einnig er hugsanlegt að fjárfesting þessi skapi klúbbnum möguleika á að selja sérræktað golfflatargras til golfvalla í nágrenninu."

 

Þessi umsögn er í heild sinni samþykkt inn í þessa skýrslu.

 

Samþykkir félagsfundur allt ofanritað.

 

Félagsfundur haldinn í sögumiðstöð Grundarfjarðar 29. september 2011.

 

Fundarstjóri; Björg Ágústdóttir

Fundarritari; Þórður Áskell Magnússon.

© 2020 Golfklúbburinn Vestarr

bottom of page