top of page

Saga klúbbsins

Í upphafi voru það þeir Páll Guðmundsson, Bent Russel, Gunnar Kristjánsson, Magnús Álfsson og Friðrik Rúnar Friðriksson sem fengu þá flugu í höfuðið að það væri stórgóð hugmynd að byggja upp golfvöll í Grundarfirði. Í framhaldi af því stofnuðu þeir félagar klúbbinn Vestarr 27. júlí árið 1995 og mynduðu þessir sömu menn fyrstu stjórn golfklúbbsins. Fyrsti formaður klúbbsins var Páll Guðmundsson, varaformaður Friðrik Rúnar Friðriksson, gjaldkeri Bent Russel, ritari Gunnar Kristjánsson og meðstjórnandi Magnús Álfsson. Hér fyrir ofan má sjá þessa vösku ungu menn.
Sveitarstjórinn okkar á þeim tíma hann Magnús Stefánsson var stjórninni afar hjálplegur og meðal annars með samningu laga klúbbsins. Fyrsta verk stjórnarinnar var að semja við landeigandann hann Njál Gunnarsson í Suður-Bár. Tók Njáll vel í þessar bollaleggingar og lagði klúbbnum til land þar sem Bárarvöllur var síðar byggður. Því næst var haft samband við Hannes Þorsteinsson golfvallarhönnuð og hann fenginn til þess að hanna 18 holu golfvöll, menn voru stórhuga strax í upphafi. Fyrsta árið fór sem sagt vel af stað, golffélagar voru strax orðnir 49 talsins. Fjárfest var í gamalli brautarsláttuvél frá Sauðárkrók, gras var slegið sem og fyrstu boltarnir. Á aðalfundi 4 .nóv sama ár fékk svo klúbburinn nafnið Vestarr. Árið eftir eða 1996 var fjárfest í fyrsta skála félagsins, heilir 20 fermetrar og var það mikil og góð framför fyrir klúbbinn. Hér má sjá þegar skálinn kemur inn á golvallarsvæðið.
Golfklúbburinn Vestarr var stofnaður haustið 1995 og var byrjað að byggja upp 9 holu golfvöll vorið 1996 í Suður-Bár, sem er við austanverðan Grundarfjörð. Þar er gott land undir golfvöll, þurrt og hæðótt með góðu útsýni yfir fjörðinn. Völlurinn fékk nafnið Bárarvöllur en Bár (Bari) í Suður-Ítalíu og er talið að suðrænir sjómenn fyrr á öldum hafi haft kapellu í Bár og heitið á dýrlinga borgarinnar á Ítalíu. Nafnið Vestarr kemur frá landnámsöld en Vestarr Þórólfsson var fyrsti landnámsmaður í Eyrarsveit. Um hann má lesa í Eyrbyggju en hér er sögusvið hennar.
bottom of page